mardi 22 mars 2011

LA CREATION (en islandais)

ISLANDAIS :

SKÖPUNIN

„Hér er saga upphafsins,
Þá var enginn fugl,
Ekki neinn fiskur,
Ekki neitt fjall.
Hér er himinninn, aleinn
Hér er hafið aleitt
Það er ekkert fleira
-ekki hljóð, ekki hreyfing.
Aðeins himinn og haf.
Aðeins Himna-Hjarta, aleitt.“

Popol Vuh
The Creation

Allt er nú hjótt: viðkvæmt asparlaufið,
húsið, dalurinn fullur af írisum, hreiðrin.

Hví er ég í kvöld ásóttur af Quiche Mayum?
Hvað á ég sameiginlegt með þeim, ég Þrakverskur unnandi hesta,
skáldið sem ann dýrð Býsans,
Vinur Guðs haldinn ástríðu fyrir hinum miklu kristnu dulspekingum?

Satt er það:
alla daga hafa aðrar hugsanir kvalið sál mína
-hvernig lýsa skal vindinum í versi,
hvernig túlka þögn, birtu, skærleik hennar, hreinleika,
hvernig læra skal að rugla aldrei saman fegurð og mannasiðum.

Hví skyldu sköpunarmýtur Quiche skipta mig máli,
þessar þjóðsagnir um illa guði:
Wuqub‘ Kaqix og syni hans Zipcana og Cabrakan
sem létu öll eldfjöll á jörðu gjósa
og drápu glæsilegu ungmennin
Hunahpu og Zbalanque, en sálir þeirra voru barmafullar
af gæsku og meðvitund um miskunn?

Já, í raunheiminum,
hví skyldi stríð Acabs í landi Xibalba
skipta mig máli?

Hví er ég svo snortinn af sögunni af Xquic prinsessu,
dýrðlegri móður Hunahpu og Xbalanque,
við uppgang hinna frægu höfðingja máttugu Maya fjölskyldnanna,
Balam Quitzé, Balam Acab, Mahucutah og Iqui-Balam,
af dulmagnaðri sögunni af Ixtah og Ixpuch, tveimur
stúlkum sem reyndu að tæla nýju guðina með fegurð sinni?

Ó sál mín, ó, hjarta mitt, farið, farið þessa ferð,
þið ferðalangar sem elskið gátur sköpunarinnar!
Kannski þetta sé til þess
að skáldrödd mín og tilvera öðlist meira næmi-
fyrir þessa samsekt manna og hluta?
Kannski þetta sé til þess að orð mín öðlist nýtt blóð?

Veit einhver hér hvort þetta sé satt?

Ég halla mér að stofni asksins
framan við hús mitt, með andlitið að berkinum
ég gæli við hann. Aðeins askurinn og ég eigum
svarið á komandi nóttu,
askurinn og ég sem erum, á þessu andartaki,
öll eilífðin!

Léttur andvari hefst.
Hann fyllir eyru mín hlýju muldri
líkt og hann vildi venja munn minn
við mildan sætleik ávaxta.

Athanase Vantchev de Thracy

Traduit en islandais par Hrafn Andrés Hardarson

Aucun commentaire: