mercredi 16 février 2011

VOLUPTES INASSOUVIES (en islandais)

ÓFULLNÆGÐAR ÞRÁR

„Og nú er það nóttin án enda.“

Nikos Alexis Aslanoglou
Skilnaðurinn

Það var, misminni mig ekki, Ó blíða barn mitt,
við Horefto, heillandi litlu ströndina við rætur Pelion fjalls.
Ó! Hve hann rigndi þennan ljúfsára nóvemberdag!
Hve náttúran virtist dimm eins og hún syrgði,
og allt virtist niðurlútt af þungri fortíðarþrá!

Ekki sála á bak við lokaða gluggahlerana,
ekki eitt einasta kaffihús opið!
Snúa við? En það var ekkert svar.
Og við leituðum í örvæntingu, þrjósk, auðmjúk
með tröllaukinni staðfestu,
reið sjálfum okkur, harmi slegin,
að dyrum sem lykjust loksins upp!

Skyndilega náðu leitandi höndum okkar gleðiraddir,
skyndilega skullu leyndardómsfull orð
á aumum augnlokum okkar!

Við skunduðum þangað, opnuðum dyrnar að ljósinu, gengum inn!

Og þetta var ólýsanlega kraftaverkið!
Þarna varst þú fyrir augum okkar, mitt fagra barn,
brosandi erki engill, glæsileg eftirmynd grísks guðs
sem orðinn var að ljósi!

Og við drukkum, hlið við hlið, hlæjandi hástöfum
óþekkt vín, safarík, sæt og svalandi,
rúbín rík,
lituð appelsínu gulli, með endurskini sægrænu flóðs
og fjöru,
með bjarma rafgulls.
Vín, óþekkti engill minn,
með unaðsangan myntu og sítrónu,
kirsuberja og epla,
apríkósa og absintu,
og allra hinna óteljandi ávaxta óspjallaðra skóga!

Ítalskan okkar var stirð,
við sögðum þúsundir hrífandi smárra og einskisverðra hluta,
leyndum ómældum leyndarmálum.
Og ævafornt taumleysi
sprautaðist út í blóð mitt, eins og höfugt haustfljót
fleytir lúnum vötnum sínum yfir sléttu kvöldsins.

Og munúðarfull flauels rödd þín
þagnaði þarna, nákvæmlega í lófum mínum,
þar sem enn eimdi eftir af gælum, af bernsku!

Og þessi svipur, sætari, mýkri við snertingu
en víðfeðmur himinninn í Þessalóníku
eða duftmettað loftið á Pelopsskaga,
auðugri en lúxusinn á öldum Eyjahafs
í ríkmanns iðjuleysi þeirra!

Þú hneigðir þig fyrir mér
eins og ferskjutréð í blóma hneigir
ilmandi greinar sínar að vori.
Og andardráttur þinn sem af kornknippum
gældi við kinn mína eins og bikarblöð ungs hesliviðar
stryki með auðmjúkri angan sinni
opnar varir ljósvakans!

Það rignir í París!
Aleinn, í öðru kaffihúsi, mitt fagra barn,
nógu daufur til að glata allri von,
ég hugsa um þig, um þig, minn hverfula engill!

Ég loka augum mínum og opna athugul eyru mín!
Og aftur endurómandi brunnur silkiraddar þinnar,
eins og rósahunangssafi valmúa engis,
fyllti þyrsta lithimnu augna minna göldrum sínum!

Einu sinni enn skellur fjarlægur ilmur basilíku og myrtusar
brothættra lúpína og villtra sólselja,
stolts beitilanda Hellas,
á loga gagnaugna minna
og umkringja nakið skáldanafn mitt
með ævafornum ófullnægðum þrám!
---------
Nikos Alexis Aslanoglou (1931-1996) Eitt beittasta skáld Grikkja, fæddur í Þessalóníku.

Traduit en islandais par Hrafn Andrés Hardarson

Aucun commentaire: